Þingeysk sveitarblöð

Héraðsskjalasafn Þingeyinga varðveitir yfir 700 tölublöð af sveitarblöðum. Sveitarblöð voru handskrifuð blöð sem gengu á milli bæja. Oftast var eitt eintak skrifað sem gekk síðan ákveðna leið milli bæja. Hitt var líka til að fleiri enn eitt eintak af sama tölublaði var skrifað til að flýta för þeirra. Efnistök blaðanna fór eftir því hver útgefandinn var. Algengt var að Lestrarfélög, bindindisfélög og menntafélög gæfu út blöð. Blöðin voru síðan lesin upp á félagsfundum eða í baðstofum. Einstök blöð voru gefin út af einstaklingum. Jakob Hálfdanarson gaf þannig út líklega ein þrjú blöð og Jón á Gautlöndum gaf um skeið út blað sem hann kallaði Gauta. Sveitarblöð voru gefin út um land allt. Á Norðurlandi hafa flest sveitarblöð varðveist í Þingeyjarsýslu og Eyjafirði.

Þingeysk sveitarblöð
Yfir 60 titlar af sveitarblöðum eru varðveittir á Héraðsskjalasafni Þingeyinga.

Mývetningar voru áberandi öflugir í sveitarblaðaútgáfu. Tæplega helmingur af þeim 60 titlum sem varðveist hafa voru gefin út í Mývatnssveit. Dæmi um sveitarblöð sem komu út í Mývatnssveit eru blöðin Dagskrá, Frosti, Gauti, Gustur, Hafrænan, Hreggviðr, Kári, Lalli, Mývetningur, Óspakur, Óþveginn, Reikull, Tilraun, Umrenningur, Undiralda, Vakandi, Vilji, Viljinn, Víga-Skúta, Vökustaur og Þambaskelfir.

Þingeysk sveitarblöð
Ef frá er talinn blaðhausinn var efni sveitarblaðanna jafnan hreinn texti. Einstaka töflur sjást en myndum er ekki til að dreifa nema í undantekningartilvikum og þá aðeins sem smávægilegt skraut. Blaðið Undiralda, sem var gefið út í Mývatnssveit, er eitt af þessum undantekningartilvikum. Blaðhausinn var iðulega fagurlega skreyttur og teikningar birtust við sumar greinar.

Jakob Hálfdanarson segir í ævisögu sinni að einhver sveitarblaðaútgáfa hafi átt sér stað í Fnjóskadal áður en hann hófst handa veturinn 1874-1875. Elsta sveitarblaðanna í Þingeyjarsýslu er Framar blað Framfarafélags Fnjóskdæla, sem skrifað var á Þverá í Dalsmynni og hóf það göngu sína árið 1875. Í Grýtubakkahreppi hóf lestrarfélag sveitarinnar útgáfu félagsblaðs árið 1876. Árið 1877 segir Norðanfari að sveitarblöð komi út í Mývatnssveit, Bárðardal, Reykjadal, Fnjóskadal, Höfðahverfi og Eyjafirði. Sama ár fór lestrarfélag austur á Langanesi að gefa út sveitarblað.