Skjalasöfn án safnara?

Árið 1947 voru sett lög sem heimiluðu stofnun skjalasafna í einstökum héruðum. Í kjölfarið var Héraðsskjalasafn Skagfirðinga stofnað, fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Eitt af meginmarkmiðum safnsins hefur ætíð verið að safna gögnum og heimildum um héraðið og varðveita á tryggum stað. Safnkostur Héraðsskjalasafns Skagfirðinga hefur vaxið og dafnað síðastliðna áratugi, ekki síst vegna safnara sem hafa lagt á sig ómælda vinnu í sjálfboðastarfi við söfnun á skjölum og ljósmyndum fyrir safnið. Það er öllum ljóst sem koma að skjalasöfnum á einn eða annan hátt, hversu dýrmætt starf safnarar hafa unnið. Án þeirra væru söfnin líklega ekki jafn áhugaverð og raun ber vitni.

Safnarinn Andrés Valberg
Sigríður Sigurðardóttir og Andrés H. Valberg skoða forngripasafn Andrésar. HSk. hcab 2860.

Safnarinn Andrés H. Valberg

Andrés H. Valberg fæddist á Syðri-Mælifellsá í Skagafirði 15. október 1919. Andrés kom víða við og starfaði meðal annars sem sjómaður, loðdýrabóndi, bílstjóri, vann við járn- og trésmíðar, svo fátt eitt sé nefnt. Andrés var kunnur hagyrðingur en síðast en ekki síst var hann afkastamikill safnari. Stærst safna hans eru forngripa- og fornbókasafn og náttúrugripasafn. Þessi söfn gaf Andrés Byggðasöfnunum á Skógum og í Skagafirði og í Varmahlíðarskóla í Skagafirði. Einnig gaf hann Héraðsskjalasafni Skagfirðinga dýrmæt fornhandrit og ljósmyndir úr sínum fórum. Jafnframt hafa afkomendur Andrésar afhent skjalasafninu stórt safn skjala sem inniheldur m.a. fornbækur, handrit, ljósmyndir og bréfasöfn sem Andrés hafði safnað ásamt ýmsum öðrum skjölum sem varpa ljósi á ævistarf Andrésar og er dýrmætt innlegg í skjalaflóru safnsins.

Safnarinn Andrés Valberg
Fornhandrit úr fórum Andrésar H. Valberg.
Rímur af Gunnari Hámundarsyni, Egils rímur Skallagrímssonar, og Illugasaga Talgdarbana.

Meðal skjala sem Andrés afhenti Héraðsskjalasafni Skagfirðinga eru Rímur af Gunnari Hámundarsyni eftir Kolbein Grímsson Jöklaraskáld og er það líklega eina handritið sem til er af þessari rímu. Talið er víst að handritið sjálft sé ritað seint á 17. öld og telst því afar fágætt.

Skoða stafræna útgáfu af Rímum af Gunnari Hámundarsyni.