Leiðari

Skjalasöfnin á Norðurlöndum sameinast um að kynna starfsemi sína á Norræna skjaladaginn 9. nóvember 2019. Dagurinn er kynntur undir yfirskriftinni „Geymt en ekki gleymt“ og má því segja að umfjöllunarefni skjalasafnanna geti verið æði fjölbreytt.

Skjalasöfnin eru minni þjóða. Það sem þau varðveita er geymt um alla framtíð og með því að hlúa vel að þeim erum við um leið að tryggja varðveislu sögunnar. Hið gríðarmikla gagnamagn sem geymt er í skjalasöfnunum er þó flestum hulið og í dag birta íslensku skjalasöfnin dálítið sýnishorn af safnkostinum. Það verður vonandi til þess að auka þekkingu almennings á því hvers konar gögn eru geymd á skjalasöfnum.

Dagurinn gefur líka tilefni til að hugsa um hvernig við munum geyma þau gögn sem verða til í dag. Hvernig geymum við tölvugögnin okkar? Er raunveruleg hætta á að þau muni ekki vera varðveitt – að þau verði ekki geymd eða þá geymd á formi sem verður ólæsilegt til framtíðar? Stutta svarið er já. Það er raunveruleg hætta á því að rafræn gögn muni glatast ef ekki er gætt að því að uppfæra hugbúnað og gera gögnin þannig úr garði að þau verði aðgengileg til framtíðar. Það er hið stóra verkefni skjalasafnanna á næstu árum og áratugum, en jafnframt verkefni allra sem vilja varðveita sín gögn, hvort sem þar er um að ræða mikilvæga samninga eða myndaalbúm