Glerárgarðurinn – varnir gegn ágangi Glerár á Oddeyri

Eftir að byggð fór að myndast á Oddeyri á síðustu áratugum 19. aldar kom í ljós að Glerárin gat verið hættuleg byggðinni þar. Málið heyrði undir veganefnd bæjarins.

Varnargarður við Glerá
Örin bendir á varnargarð sem gerður var til þess að verjast flóðum í Glerá árin 1919 og 1920.

Í apríl árið 1917 gengu fulltrúar veganefndar út að Glerár til þess að kanna aðstæður og möguleika þess að verjast flóðum úr henni. Ekki töldu nefndarmenn sig geta lagt fram ákveðnar tillögur vegna þess að ís og ruðningur var yfir og landslagið því ekki nógu sýnilegt. Samt þóttust þeir sjá möguleika þess að veita ánni aftur í sinn gamla farveg norður að bökkunum, fyrir a.m.k. 300 krónur. Kannski hefur þeim þótt kostnaðurinn drjúgur enda kölluðu nefndarmenn eftir úrskurði bæjarstjórnar um hvort það væri bæjarins eða lóðareigenda á Oddeyri að verjast ágangi árinnar.

Fundarboð
Á fundinum lofaði Ottó Tulinius, fyrir hönd Hinna sameinuðu íslensku verslana, að leggja fram fyrir þeirra hönd 3.000 krónur til varnargarðsins ef aðrir lóðareigendur tækju einhvern þátt í kostnaðinum en 2.500 krónur ella.

Í maí árið eftir fóru veganefndarmenn aftur í vettvangsskoðun út að ánni og höfðu nú með sér bæjarverkstjórann Pál J. Árdal. Að skoðun lokinni lögðu nefndarmenn til ,,…að Varnargarðurinn verði lagður, frá næsta melhorni ofan við Tóvélarnar og út og ofan eyrarnar allt niður undir brúna sem liggur yfir ána, lengd garðsins samkvæmt þessu verður 300 metrar og hæðin áætluð allt að 2 metrum, bæjarverkstjórinn hefur áætlað lauslega að varnargarðurinn muni kosta allt að 16.000,00 krónur.“

Í september var landsverkfræðingurinn Geir Zoëga búinn að leggja blessun sína yfir tillögu veganefndarinnar um legu garðsins og nefndarmenn biðu eftir teikningum hans og kostnaðaráætlun. Nefndarmenn lögðu eigi að síður til að byrjað yrði á verkinu s.s. við að flytja grjót á staðinn. Ekki var búið að leysa vandann með kostnaðinn við verkið þrátt fyrir fundarhöld og ábendingar til bæjarstjórnar um að gera ráð fyrir framkvæmdinni í fjárhagsáætlun.

Reikningur
Við byggingu varðargarðs eru kostnaðarliðirnir fleiri en launin. Það þarf til dæmis að borga fyrir lán á verkfærum og sleðum, svo þarf að nota dýnamít og gera við verkfærin.

Í janúar 1920 hélt bæjarstjórinn fund með lóðareigendum á Oddeyri um þátttöku í kostnaði við byggingu Glerárgarðsins. Nokkrir lóðareigendur voru fúsir til að taka þátt í kostnaðinum en ákveðið var að halda málinu áfram meðal þeirra lóðareigenda sem ekki mættu á fundinn.

Garðurinn var gerður 1919 og 1920.

Heimildir

„Akureyri og árnar í grend við hana“, Íslendingur, 8. júní 1920.
A-1/142 Skjöl frá bæjarstjórn, bæjarstjóra og bæjargjaldkera. Ávísanir og fylgiskjöl 1920.
A-2/8 Send bréf frá skrifstofu bæjarstjórnar. Bréfabók bæjarskrifstofu (kopíubók) 1918-1921.
A-27/1 Veganefnd. Gjörðabók 1906-1921.
„Til athugunar“, Verkamaðurinn, 11. september 1919.
„Úr bænum“, Dagur, 15. janúar 1919.
„Varnargarðurinn“, Íslendingur, 12. janúar 1917.