Ólympíuleikarnir í Berlín 1936

Í Héraðsskjalasafni Þingeyinga er varðveitt einkaskjalasafn Jónasar Geirs Jónssonar. Jónas fæddist á Rifkelsstöðum í Eyjafirði 31. mars 1910 og hann andaðist á Sjúkrahúsi Þingeyinga þann 4. október 1997.

Ólympíupassi Jónasar Geirs Jónssonar
Ólympíupassi Jónasar Geirs Jónssonar.

Um 20 ára skeið lét Jónas að sér kveða sem íþróttakennari á Húsavík. Hann var ráðinn til að kenna leikfimi við barnaskólann á Húsavík 1933 svo og íþróttir hjá Íþróttafélaginu Völsungi. Varð hann síðar fastur kennari við Gagnfræðaskóla Húsavíkur og kenndi þar til ársins 1977 er hann lét af starfi sökum aldurs. Hann hafði þá kennt yfir 40 ár við skólana á Húsavík. Almennt kennarapróf hafði hann tekið 1942. Jónas Geir var heiðraður af ýmsum félagasamtökum fyrir störf sín. Hann var heiðursfélagi í knattspyrnufélagi Akureyrar, einn af stofnfélögum félagsins. Hann var heiðursfélagi Völsungs og golfklúbbs Húsavíkur. Hann var sæmdur gullmerki ÍSÍ 1977.

Ólympíufarar Íslendinga 1936. Jónas fremst, annar frá hægri.
Ólympíufarar Íslendinga 1936. Jónas fremst, annar frá hægri.

Árið 1936 gafst Jónasi Geir kostur á ásamt fleiri íþróttakennurum íslenskum að sækja Ólympíuleikana sem það ár voru haldnir í Berlín. Þjóðverjar buðu 30 manna hópi íþróttafrömuða frá hverri keppnisþjóð á leikana. Sú ferð varð Jónasi óþrotleg uppspretta næstu árin til að miðla nemendum sínum fróðleik frá þessum miklu leikum. Sú frásögn varð lifandi í munni Jónasar, studd myndum úr blöðum og blaðaúrklippum, sem hann hafði safnað saman, og geymt var í möppu, sem gekk milli borða í bekknum eftir því sem sögunni vatt fram ­ og nemendur hlustuðu á bergnumdir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *