Gunnsteinsstaðakirkja

Hún er elzta hús á Íslandi, svo sem á sér. Hún er ímynd gamla margsagða æfintýrisins um horfna upphefð æskudaganna, því að nú er hún, sem fyrr var heilagt musteri og bústaður guðs, orðin skemma og heimkynni hnakka og svarðarreipa.

Sumarið 1918 var ég á ferð nyrðra og gisti um nótt hjá gömlum bekkjarbróður mínum, Hafsteini stúdent Péturssyni, bónda á Gunnsteinsstöðum í Langadal. Stendur bærinn austanmegin Blöndu í hlíðarslakka. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að sú er venjuleg skipun húsa á íslenzkum bæ, sem stendur í hlíð, er hallar að fljóti, að ekkert hús stendur þar á milli bæjarhúsanna og árinnar nema kirkja sé. Eins er það, að hús önnur en kirkja, er standa kynnu andspænis bæjarhúsunum snúa oftast nær dyrum til bæjarins. Á Gunnsteinsstöðum varð mér starsýnt á hrörlegan kofa, sem stóð fyrir neðan bæjarhúsin ármegin og snéri dyrum til árinnar. Þótti mér þetta svo einkennilegt, að ég hafði orð á þessu við Hafstein, en hann sagði mér, að sagan segði að þetta hefði kirkja verið, en virtist ekki leggja mikinn trúnað á. Við rannsókn, sem ég gerði þá, kom það mjög greinilega í ljós, að sagan var sönn. Þetta var kirkjuhús, og lá það í miðjum kringlóttum kirkjugarði, sem á köflum sást móta fyrir í jarðveginum í kring. En slík lögun kirkjugarða var ekki óalgeng í fyrri daga.

Gunnsteinsstaðakirkja

Að útliti er kirkjan í öllu verulegu eins og kirkja sú, sem lýst er í Hómiliubókinni. Hún er kórlaus og forkirkju. Veggir og austurgafl eru úr torfi, mjög þykkir – um 1,5 m – , sem aðallega stafar af sigi veggjanna og hruni úr þeim. Að innan er hún 21X12,5 fet, svo að ekki hefir sá, sem þá kirkju byggði, ætlað að kaupa mörgum sálum rúm í eilífri sælu, en það var sagt til forna, að sá, sem kirkju byggði, ætti jafnmörgum vissa vist á himnum og kirkjan rúmaði. Fyrir vesturgafli er tréþil með afar lágum dyrum, og er gluggi sín hvorum megin við þær, sem ekki er meira en fjórði hluti álnar á hvorn veg. Þakið er venjulegt sperruþak, en mikið raskað frá því, sem í öndverðu var. Insta stafgólfið hefir fyrrum verið kór, því að greinilega sér grópar fyrir pílárum og slám í insta þvertré og stoðum, en þar hefir verið milligerð milli kórs og kirkju. Undir hornstöfunum vestri sér greinilega hornsteinana, sem eru flatar, stórar hellur. Frá fornu fari sér hvergi málmnagla í öllu húsinu, heldur hefir alt verið tréneglt. Fyrir kirkjugarðsgirðingunni sér enn móta, en svo er garðurinn þröngur, að varla hefir legið gröftur að. Kirkja á Gunnsteinsstöðum var helguð Ólafi konungi helga, og er hennar síðast getið í kaþólskum sið í máldaga Jóns Hólabiskups IV. (Vilhjálmss.) 1432, en á dögum Auðunar biskups, 1318, hefir hún verið alkirkja að því, er virðist. Þegar Árni Magnússon í byrjun 18. aldar semur jarðabók sína, segir hann í henni, að til Gunnsteinsstaðakirkju megi syngja, þegar heimamenn vilji taka sakramenti, og er hún eftir því að öðru leyti aflögð þá. 1811 kallar bóndinn á Holtastöðum hana Gunnsteinsstaðaskemmu og segir hana aflagða fyrir ,,mörgum öldum“. Vitanlega eru það ýkjur, en hitt er víst, að hún hefir þá löngu verið gengin út úr meðvitund manna sem kirkja. Hafi kirkjan nú aflagst um 1700, er ekki of mikið með þeim aldri, sem torfhús ná á Norðurlandi, að ætla, að hún hafi með slíku viðhaldi, sem kirkjur hlutu að fá, verið þá 150 ára gömul eða frá því um eða fyrir siðaskiftin. Að minsta kosti hefir hún staðið viðhaldslítil í langan tíma, sem skemma. Til stuðnings því er, að hún er 1432 metin á 12 hundruð velstandandi, en íslenzk lengdaralin í torfhúsum var þá metin á hundrað á landsvísu. Svarar það verð einmitt í öllu verulegu til nú verandi stærðar kirkjunnar.

Gunnsteinsstaðakirkja
Gunnsteinsstaðakirkja.

Gunnsteinsstaðarkirkja er elzta kirkja og hús landsins, eldri en skálinn á Keldum, og eina kirkjan frá því fyrir siðaskiftin.

Kirkjuhúsið hefir hjarað í öll þessi ár af því að enn var það til nokkurs nýtt, en nú verandi ábúandi treystir sér þó ekki ti að halda því uppi lengur; – hann er búinn að hýsa svo bæ sinn að það er óprýði að húsinu. Hann vill þó lofa húsinu að standa, ef það er hresst við og gert sem líkast því, sem í öndverðu var, og er það vel boðið.

Þjóðmenjavörðurinn, hr. Matthías Þórðarson, hefir nú farið þess á leit við stjórnina, að hún biðji þingið að leggja fram það fé, sem með þarf og varla verður mikið. Það er því vonandi, að stjórn og þing taki vel í þessa málaleitun. Við eigum svo fátt af fornum húsum, að því litla, sem til er, verður að bjarga. Ef til viðgerðar kemur, sem óefað má gera ráð fyrir, verður að fela hana þjóðmenjaverði, sem er ágætur maður í sinni grein, heldur af hinu, að hér er svo margs smávægilegs að gæta, sem augu sjá betur en auga, og að slíkar viðgerðir á gömlum húsum verða ekki aftur teknar, og hér er um að gera að skapa rétta mynd af húsinu eins og það var, en ekki hugmynd eins manns um það efni. Um þetta efni er alþingi trúandi til hins bezta.

Texti: Guðbrandur Jónsson