Í Héraðsskjalasafni Þingeyinga er varðveitt einkaskjalasafn Þórarins Stefánssonar bóksala. Þórarinn fæddist á Grásíðu í Kelduhverfi 17. september 1878. Hann lést 3. maí 1965. Hann rak ljósmyndastofu og bókaverslun á Húsavík um árabil. Hann var mikill áhugamaður um þjóðlega fróðleik og safnaði m.a. alþýðukveðskap, íslenskum sögum og skrýtlum. Í heftinu „Íslenskar sagnir frá eldri og yngri tímum“ skrásetti Þórarinn sagnir sem hann komst yfir. Í heftinu (HérÞing. E-755/23) er m.a. eftirfarandi saga.

Þórarinn Stefánsson bóksali (1878-1965)
Þórarinn Stefánsson bóksali (1878-1965).

Hrakningur til Grímseyjar

Kristján Jónsson, sem lengi var á Ísólfsstöðum á Tjörnesi, lenti eitt sinn í sjóhrakningum, en komst af á nærri yfirnáttúrulegan hátt.
Þegar Kristján var unglingur í Breiðuvík á Tjörnesi (líklega eitthvað um miðja þessa öld.) þá bar svo til einn dag á jólaföstu að hann réri til fiskjar aleinn, á mjög lítilli byttukænu, sem samt var ákaflega stöðug og góð í sjó að leggja. Um morguninn þegar hann hélt frá landi var veður hið besta, kyrrt og frostlaust og leit þýðlega út. Og þá er Kristján var búinn að vera allengi út á víkinni, brást allt í einu í ofsa veður á suðaustan er smásaman jókst meir og meir.
Engin tiltök voru nú fyrir Kristján að komast til lands því hann fór þegar að reka óðfluga undan veðrinu. Tók hann þá það ráð, að hann renndi út tveimur færum, sem hann hafði með sér í byttunni og vildi láta sökkurnar festast í botni enda tókst það en vegna þess að veðrið var svo mikið bjóst hann við að færinn kynnu að slitna svo hann settist undir árar og réri af alefli til að létta undir með færunum. Réri hann það sem eftir var dagsins sem liðið var á, því dagur var stuttur (af því skammdegi var) nóttina næstu og fram á morgun, en af því hann var orðinn þreyttur af róðrinum en veðrið fullt svo mikið og áður þá slitnaði annað færið og svo hitt þegar á eftir. Var nú ekki um annað að gjöra en að láta reka undan til hafs, því ekkert var hægt að gera og engin lífsvon framar fyrir mann á litlu fari um hávetur.
Reyndi Kristján að halda byttunni réttri og rak hún ákaflega fljótt undan allan daginn þangað til skömmu fyrir rökkur, þá gryllti Kristján allt í einu í land, gegnum særokið og öskrandi brimgarðinn í kring. Ekki hafði Kristján neitt orðið hræddur á hrakningi sínum, enda þótt honum hefði aldrei getað dottið í hug að hann gæti hitt Grímsey. En nú þegar svo var þá hugsaði hann með sér að margur drukknaði nærri landi, því hann bar sunnan og austan að eynni, þar sem er ægilegast. En samt bar byttuna einhvern veginn í gegnum rjúkandi brimgarðinn og upp í urðina.
Komst Kristján þannig af sjónum upp í Grímsey allur blautur og klakaður af særokinu því frost var komið. Hélt hann nú upp eftir eynni una hann hitti bæ. Var strákur einn þar úti og leist honum svo á Kristján, svona á sig kominn að sjódraugur væri, greip því lurk og vildi veita honum aðgöngu því honum gat eigi komið til hugar að í roki þessu gæti mennskur maður af sjó komið. En þá sagði Kristján: „Vertu hægur drengur minn, þetta er maður“. Þarf ekki að orðlengja það að Kristján var í Grímsey það sem eftir var vetrarins í góðu yfirlæti.
En fólk í landi taldi Kristján náttúrulega af og vissi það ekkert um af komu hans fyrr en um vorið að hann kom heim því þá undruðust allir, enda var koma hans óþægileg sumum, er talið höfðu til skuldar þá er eigur hans voru boðnar upp um veturinn. Kristján varð gamall maður og var lengi á Ísólfsstöðum eins og áður er sagt.