Að geyma „allt“

Í endurvinnsluumræðu nútímans verður manni oft hugsað til þeirra sem geymdu „allt“ og endurnýttu gjarnan það sem hægt var. Endurvinnsla er nefnilega ekki ný af nálinni. Þó má kannski segja að orsökin hafi verið önnur hér áður fyrr, þ.e.a.s. nýtni og sparnaður fremur en umhverfissjónarmið. Einnig kann að vera að fólk hafi einfaldlega geymt hlutina af því það sá í þeim verðmæti sem við sjáum ekki í dag.

Úr safni Guðmundar Davíðssonar
Guðmundur tók virkan þátt í pólitík eins og öðrum félagsstörfum. Í safni hans er að finna ýmis gögn tengd kosningum í fyrri hluta siðustu aldar.

Guðmundur Davíðsson á Hraunum í Fljótum

Guðmundur Davíðsson (1866-1942) á Hraunum í Fljótum var sveitahöfðingi á sinni tíð og gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum. Hann var m.a. hreppstjóri og sýslunefndarmaður og stuðningsmaður allra helstu félags- og menningarmála í sveitinni. Hann hafði á höndum fjölbreytt verkefni, t.a.m. póstafgreiðslu, happdrættisumboð og skipaafgreiðslu.

Úr safni Guðmundar Davíðssonar
Ýmis konar umbúðir er að finna í safni Guðmundar. Hann hefur til að mynda geymt smjörlíkisumbúðir og pappírspoka frá verslunum sem hann hafði viðskipti við.

Íbúðarhús Guðmundar stendur ennþá á Hraunum, eitt af elstu íbúðarhúsum í Skagafirði. Þar varðveittust ýmis gögn úr búi Guðmundar sem voru afhent Héraðsskjalasafni Skagfirðinga fyrr á þessu ári. Bókasafn Guðmundar innihélt einnig margar gersemar, en það var gefið Bókasafninu á Siglufirði að honum látnum. Bróðir Guðmundar var Ólafur Davíðsson þjóðsagnasafnari og því má segja að söfnunareðlið hafi verið ríkt í þeim bræðrum.

Auglýsingar og umbúðir

Auk skjala sem varða trúnaðarstörf Guðmundar er að finna í safni hans ýmis konar fjölritaðar auglýsingar. Þær eru allt frá því að tengjast bíósýningum og myndskyggnusýningum, til hlutavelta og og áætlana landpóstanna frá ári til árs. Í safninu er einnig að finna dagatöl og biblíumyndir, sem og umbúðir eins og bréfpoka og smjörlíkisbréf.

Úr safni Guðmundar Davíðssonar
Dagatöl, nafnspjöld, afrifur af umslögum, biblíumyndir og sígarettur eru partur af því sem Guðmundur geymdi í fórum sínum.

Í allri þeirri ofgnótt markaðsefnis sem dynur á okkur í nútímanum er gaman að skoða þessi skjöl og velta fyrir sér einfaldleikanum en jafnframt þörf manna fyrir að skreyta og gera hlutina fallega, þó efnin væru ekki alltaf mikil.