Í skjalasafni Ísafjarðarkaupstaðar má finna ýmislegt áhugavert tengt sögu kaupstaðarins. Þar á meðal er lítill pappakassi sem inniheldur bréfpoka með steinvölum. Meðfylgjandi er umslag með eftirfarandi utanáskrift: „Fróðleikur um innihald kassans“ og bréf skrifað af Jóni Guðjónssyni sem gegndi starfi bæjarstjóra Ísafjarðarkaupstaðar árin 1943–1945 og 1951–1966.

Pappakassinn með bréfi Jóns Guðjónssonar bæjarstjóra
Pappakassinn með bréfi Jóns Guðjónssonar bæjarstjóra.


Í bréfinu útskýrir Jón Guðjónsson tilvist kassans með eftirfarandi hætti:

Oft hefur komið til tals, að æskilegt væri að fá rafmagn til innsiglingarljósanna að Naustum. Annaðhvort sumarið 1944 eða 1945 vildi Jón Gauti Jónatansson fá mælda vegalengdina frá Kirkjubóli (heldur en Kirkjubæ) að Naustum (svona hér um bil), til þess að athuga um kostnað við rafleiðslu. Það varð að ráði að biðja Þorstein Kjarval á Kjarvalsstöðum í Naustum að mæla vegalengdina nokkurn veginn rétta og tók hann vel í það. Skömmu síðar kom Þorsteinn Kjarval á skrifstofu bæjarstjóra, slöngvaði bréfpoka á borðið og kvaðst vera að skila mælingunni. Í bréfpokanum voru allmargir smásteinar. Þorsteinn Kjarval kvaðst hafa labbað inn að Kirkjubóli meðfram símaleiðslunni, tekið upp steinkurtu við hvern símastaur og látið í pokann. Kjarval vildi gera ráð fyrir, að Landssíminn hefði visst og ákveðið bil milli staura – nú og þá hafið þið vegalengdina!
Hripað upp eftir minni 17/8 1955, JG

Bréfpokinn með steinvölunum
Bréfpokinn með steinvölunum.

Mælingamaðurinn, Þorsteinn Sveinsson Kjarval, var fæddur að Efri-Ey í Meðallandi 4. mars 1878, sonur hjónanna Sveins Ingimundarsonar og Karitasar Þorsteinsdóttur. Framan af ævinni var hann sjómaður en fékkst síðan við ýmislegt í landi. Árið 1919 flutti hann vestur á Ísafjörð þar sem hann hóf fljótlega búskap á Naustum, bæ sem stóð niður við sjó sunnanvert við Sundin. Skírði hann bæinn upp og kallaði Kjarvalsstaði. Þorsteinn þótti um margt sérkennilegur, prýðilega greindur og fróður um marga hluti. Árið 1951 flutti hann ásamt konu sinni til Reykjavíkur þar sem hann lést 3. febrúar 1967.

Bréf Jóns Guðjónssonar þar sem hann skýrir innhald kassans
Bréf Jóns Guðjónssonar þar sem hann skýrir innhald kassans.