Bréf til Bergþóru

Í byrjun ágúst 2017 afhentu systkinin Eva og Þór Hreinsbörn bréfasafn frá móðursystur sinni Valborgu Helgadóttur. Hún var fædd árið 1924 á Geirólfsstöðum í Skriðdal en var síðar kennari við Austurbæjarskóla í Reykjavík. Í safninu voru meðal annars bréf sem Guðrún H. Finnsdóttir sendi frá Kanada til Bergþóru Helgadóttur móður sinnar og systur Valborgar. Í greinargerð eftir Þór sem fylgdi bréfasafninu kemur fram að Valborg óskaði eftir að hann færi yfir safnið og þá sérstaklega bréfin frá Guðrúnu og fjölskyldu hennar í Winnipeg. Hann náði ekki að skoða bréfin fyrr en eftir að Valborg lést árið 2015 og afhenti þau til Héraðsskjalasafnsins í framhaldi af því.

Valborg Helgadóttir
Valborg Helgadóttir.

Guðrún var þekkt meðal Íslendinga í Vesturheimi fyrir ritstörf sín en hún var hógvær og vildi hvorki láta kalla sig skáld né rithöfund og hélt því fram að „þessi hjáverk sín hefði hún gjört sér til hugarhægðar á andlegum tómstundum eða beinlínis fyrir ítrekaða þrábeiðni annara“.

Guðrún Helga Finnsdóttir

Guðrún Helga Finnsdóttir fæddist á Geirólfsstöðum í Skriðdal 6. febrúar 1884. Foreldrar hennar voru Bergþóra Helgadóttir og Finnur Björnsson. Á heimilinu var góður bókakostur og er Margrét Sigurðardóttir, móðuramma Guðrúnar, sögð hafa átt þátt í hve stúlkan varð bókhneigð. Margrét átti sjaldgæfar bækur, samdi ættartölur og fékk dótturdóttur sína til að skrifa þær upp fyrir sig.

Guðrún Helga Finnsdóttir
Guðrún Helga Finnsdóttir.

Guðrún flutti til Akureyrar 16 ára gömul og hóf nám í kvennaskóla þar í bæ haustið 1900. Hún hélt til hjá Guðrúnu Helgadóttur móðursystur sinni og Birni Jónssyni ritstjóra Stefnis. Á heimilinu kynntist hún Gísla Jónssyni, frá Háreksstöðum í Jökuldalsheiði, sem var prentari við blaðið.
Gísli og Guðrún gengu í hjónaband árið 1902 og stuttu síðar var ákveðið að flytja vestur um haf. Gísli fór á undan vorið 1903 en Guðrún varð eftir á Geirólfsstöðum með nýfæddan son sinn, Helga sem var á Geirólfsstöðum til átta ára aldurs, en Guðrún fór á eftir eiginmanninum til Kanada sumarið 1904.

Guðrún og Gísli bjuggu lengst af við Banningstræti í Winnipeg. Þau eignuðust fimm börn sem öll komust til fullorðinsára og tóku próf frá Manitoba háskóla, nema ein stúlka sem dó barnung. Var sá missir mikið áfall fyrir fjölskylduna.

Í tilskrifum til Geirólfsstaða kemur glöggt í ljós að hugurinn hvarflar gjarnan til Íslands. Guðrún leit heimahagana ekki aftur augum fyrr en hjónin komu til Íslands á giftingarafmæli sínu árið 1927. Guðrún rifjaði heimsóknina upp í bréfi til Bergþóru móður sinnar í apríl 1929: „En næst þegar ég kem heim þá verð ég kannski bara andi, þá fer ég fram og aftur um Austurland á gæðingi og verð á hestbaki dag og nótt.“

Úr bréfi frá 1929

Guðrún skrifaði ritgerðir og smásögur sem birtust í dagblöðum og tímaritum. Fyrsta sagan sem birtist á prenti var „Landsskuld“ í öðrum árgangi Tímarits Þjóðræknisfélags Íslendinga árið 1920. Megnið af verkum hennar hverfðist um basl innflytjenda við að finna sér stað í nýju landi. Bókin Hillingalönd – fjórtán sögur sem innihélt úrval af smásögum eftir Guðrúnu kom út 1938.

Úr bréfi frá 1929
Úr bréfi frá 1929.

Guðrún tók virkan þátt í félagsstörfum. Árið 1916 var hún einn stofnenda í Félagi Jóns Sigurðssonar sem var deild í kanadíska kvennasambandinu IODE. Guðrún var í ritstjórn Minningarrits íslenzkra hermanna sem kom út árið 1923. Hún var formaður kvennareglu Unitarian kirkjunnar árin 1927-1928 sem rak meðal annars sumarbúðir fyrir fátæk börn.

Minningarsjóður Austfirðinga vestan hafs

Árið 1929 kallaði Guðrún nokkrar konur af austfirskum ættum saman í þeim tilgangi að styrkja menntastofnun á Austurlandi. Guðrún var formaður sjö kvenna nefndar sem efndi til samskota meðal Austfirðinga í Vesturheimi og söfnuðust 5740 krónur. Á Alþingishátíðinni 1930 var minningarsjóðurinn afhentur Sigrúnu Blöndal forstöðukonu nýstofnaðs Hallormsstaðarskóla ásamt gjafabréfi og bók sem allir gefendur sjóðsins eru skráðir í ásamt ætt þeirra og uppruna.

Úr skrá yfir gefendur
Úr skrá yfir gefendur.

Guðrún lést á heimili sínu þann 25. mars 1946. Síðar það ár kom út annað smásagnasafn hennar undir titlinum Dagshríðar spor – tólf sögur. Safnritið Ferðalok var gefið út árið 1950 og innihélt fyrirlestra og ræður eftir Guðrúnu auk erfiljóða og minningarorða um höfundinn.

Römm er sú taug

Þrátt fyrir að íslensk tunga sé að hverfa meðal afkomenda Vesturfara eru enn nokkrir sem leita upprunans á Íslandi og koma þá gjarnan við á Héraðsskjalasafninu til að fræðast um ætt og uppruna. Jafnvel vilja þeir fá leiðbeiningar um hvernig hægt er að komast á bóndabæinn sem afi eða langalangamma kom frá á sínum tíma. Þó bærinn sé farinn í eyði er óskin sú að fara á staðinn. Hér eiga vel við einkunnarorð Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi sem fagnar 100 ára afmæli um þessar mundir: „Römm er sú taug“.