Úr safni Geirs Zoëga

Einkaskjalasafn Geirs Zoëga (1830–1917) kaupmanns og útgerðarmanns í Reykjavík er varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands. Þar er einnig safn sonar hans og nafna (1896–1985), sem var umsvifamikill á sviði viðskipta. Óhætt er að segja að þetta skjalasafn þeirra sé eitt merkilegasta einkaskjalasafn sem varðveist hefur hér á landi. Sem dæmi má taka eru í því upplýsingar um upphaf kútteraútgerðar í Reykjavík og rekstur sjávarútvegsfyrirtækis á 19. öld. Þar eru upplýsingar um verslunarrekstur og margvísleg gögn, stór og smá, sem eru afar lýsandi fyrir umsvifin. Þar eru gögn varðandi rekstur skipulegrar ferðaþjónustu, en Geir eldri aðstoðaði útlendinga í ferðum þeirra um landið og var umboðsmaður erlendra ferðaskrifstofa. Í safninu eru einnig afar fjölbreytt gögn er varða fisksölu og tryggingamál á fyrri hluta 20. aldar og er þá einungis nefnt brot af því fjölbreytta efni sem varðveitt er í safninu.

Fótboltakappar
Síða úr stílabók Holgers Peter Gíslasonar.

Í safni þeirra feðga kennir ýmissra grasa og er óljóst hvernig sumt sem þar er hefur ratað í skjalasafn þeirra Zoëgafeðga. Þar eru meðal annars gögn frá Holger Peter Gíslasyni og eru þau gerð hér að umfjöllunarefni. Holger fæddist árið 1912, en faðir hans, Gísli Gíslason var starfsmaður verslunar Geirs Zoëga. Hann starfaði lengi við rafvirkjun og síðar sem rafmagnseftirlitsmaður hjá rafveitum Suðurnesja. Hann gat sér gott orð fyrir mikla sönghæfileika og söng meðal annars með Karlakórnum Fóstbræðrum. Í safni Geirs Zoëga hefur hins vegar ratað dálítið af námsbókum og öðrum gögnum sem merkt eru Holger. Þar á meðal er lítil stílabók. Í bókina hafa verið límdar myndir af breskum knattspyrnumönnum. Myndirnar bera með sér að hafa verið seldar með sígarettupökkum, eins og tíðkaðist á þriðja áratug 20. aldar, en frá þeim tíma eru myndirnar. Fæstir muna væntanlega eftir þeim köppum sem rötuðu í stílabók Holgers en þó eru þeir ekki öllum gleymdir.

Albert Pape
Albert Pape knattspyrnumaður.

Fyrstur hefur rataði í bókinna leikmaður Manchester United, Albert Pape. Albert þessi á sér merkilega sögu og var góður knattspyrnumaður á sinni tíð. Hann var stór og sterkur framherji og skilaði sínu. Hans er minnst sérstaklega fyrir félagaskipti sem áttu sér stað árið 1925. Í febrúarmánuði það ár ferðast hann til Manchester sem leikmaður liðsins Capton, sem nú heitir Leyton-Orient. Capton átti að spila gegn Manchester United. Nokkrum mínútum áður en leikurinn hófst var hann hins vegar ráðinn sem leikmaður Manchester og hann skoraði mark gegn gamla félaginu í sínum fyrsta leik. „Fótboltinn er orðin að skrípaleik. Leikmenn eru keyptir eins og baunasekkir“ skrifaði íþróttafréttamaður London Evening Standard af þessu tilefni.

Eins og gefur að skilja vöktu þessi félagaskipti mikla athygli, en Albert Pape átti ekki langa framtíð sem leikmaður Manchester United. Hann lauk þessu tímabili með liðinu en þegar næsta tímabil hófst var hann ekki í neinu standi til að spila fótbolta, enda hafði hann bætt á sig allmörgum kílóum um sumarið. Hann var síðan ráðinn til Fulham og lauk ferli sínum með því að spila með utandeildarliðum í norður Englandi. Hins vegar er ljóst að myndin í skjalasafninu hefur verið tekin á vordögum 1925.

Heimildir

  • Lesbók Morgunblaðsins 17. maí 1980, bls. 2-4 og 15-16.
  • Netheimild: https://www.theguardian.com/football/blog/2012/nov/28/forgotten-story-albert-pape-united
  • ÞÍ. Geir Zoega (1830–1917) útgerðarmaður og kaupmaður og Geir Zoega (1896–1985) framkvæmdarstjóri og umboðsmaður. EC/4-1.