Hjúkrunarkona fer í stríð

Fátítt er að varðveitt séu skjalasöfn íslenskra kvenna sem hafa tekið þátt í stríðsátökum. Fyrir stuttu barst á Þjóðskjalasafnið lítið skjalasafn frá Ágústu Jónasdóttur Wingfield Digby.

Ágústa Wingfield Digby
Ágústa Wingfield Digby í búningi liðsforingja í bandaríska hernum.

Skjalasafnið samanstendur af nokkrum bréfum auk ljósmynda, meðal annars frá átakasvæðum í Kyrrahafi í síðari heimsstyrjöld. Þó skjalasafn sem þetta sé ekki mikið að vöxtum er það að mörgu leyti dæmigert fyrir einkaskjalasöfn sem verulegur fengur er að til að varðveita til framtíðar þannig að þau verði geymd en ekki gleymd.

Dagskrá á Þakkargjörðarhátíð árið 1945
Dagskrá á Þakkargjörðarhátíð árið 1945.

Ágústa Jónasdóttir fæddist í Stardal 8. mars. 1915, dóttir þeirra Ingunnar Ásmundsdóttur og Jónasar Magnússonar sem þar bjuggu. Hún gekk í Hjúkrunarskóla Íslands og lauk þar námi árið 1940. Hún starfaði við Mayo Clinic í Minnisota í Bandaríkjunum en gekk síðan í bandaríska herinn og var liðsforingi í herkvennahjúkrunarsveit 1942-1944. Herdeildin var einkum við störf á Kyrrahafssvæðinu og fékk Ágústa heiðursorður fyrir að þjóna á stríðssvæði bæði við Kyrrahaf og einnig í Frakklandi. Ágústa giftist Kenelm Essex Winfield Digby sem var major í landher Breta og síðar þingmaður. Wingfield Digby var af fornum aðalsættum og þau Ágústa bjuggu í Sherborne kastala í Dorset. Þar eignuðust þau sitt eina barn, Kenelm George árið 1952. Ágústa lést í London árið 1972 og eiginmaður hennar lést einnig aðeins ári síðar.

Heimildir

  • ÞÍ. 2019/97. Skjöl Ágústu Jónasdóttur Wingfield Digby.
  • Guðmundur J. Guðmundsson, „Digbybagallinn, íslensk listasmíð í Victoriu og Albertssafninu“, Ný Saga 4. árgangur, 1. tbl. 1990, bls. 21-27.
  • Tímarit Hjúkrunarfélags Íslands, 3. tbl. 1972, bls. 93.